Þáttur af Þórði Gestssyni - Tvö kvæði og tveim vísum betur

Þórður Gestsson fæddist 26. mars 1914 í Dal í miklaholtshreppi. Hann ólst upp þar og að Stakkhamri í sömu sveit. Kenndi hann sig gjarnan við Stakkhamar. Þórður lauk námi frá Samvinnuskólanum 1935 og fór síðan í Kennaraskólann. Þaðan útskrifaðist hann árið 1936. Hann kenndi um skeið við Barnaskólann á Akranesi, en fluttist síðan til Reykjavíkur, þar sem hann kenndi einn vetur við Austurbæjarskólann, en síðan hætti hann kennslustörfum og sneri sér að annarri vinnu.

Þórður Gestsson varð ekki langlífur. Hann lést í Reykjavík 27. sept. 1946, aðeins 32 ára að aldri. Hann var einn þeirra, sem féllu í valinn að óortum sínum bestu ljóðum.

Þórður Gestsson orti ekki mikið og mest af því voru grín- og tækifærisljóð og lausavísur. Þó hef ég undir höndum eitt kvæði eftir hann, þar sem alvaran ræður ríkjum.

 

 

Skóhljóð

Eiga þeir blys, sem yrkja ljóð?

Eru þeir fylltir helgum móð?

Eru þeir ljós er lýsi þjóð,

ljóðin viti styrkur?

Ellegar þeirra innri glóð

túlkuð í orð, og töluð út í myrkur?

 

Er nú heldur engin þörf

ævintýra-sjónarhæða?

Horfa í gegnum heimsins hvörf

gleraugun okkar köldu kjarnafræða?

 

Verða máske vísindin

veikra ljóða barnagífur?

Ellegar þeirra endurskin

túlkað í stál, sem steina og hausa klýfur?

 

Eru kvæðin undirspil

okkar fyrstu barnasöngva?

Ellegar strítt og straumhart gil?

Myllan er sterk, og geislum glampar slöngva.

 

Sé ég Unu í álfahöll

- undirheimasólin ljómar –

Nú eru liðin árin öll;

huldunni sinni hjúkra mennskir gómar.

 

Er það synd að elta í jörð

Unu, að hennar þriðju jólum?

Galdrastjúpan hennar hörð

víst hefir ekki séð við mínum sólum.

 

--------------------

 

Sest ég upp á sjónarhól,

svipi mína ljósi reifa.

Tindri stjörnur, tungl og sól.

Blysinu mínu vinglaður ég veifa.

 

Tækifærisvísur eru þáttur í bókmenntum okkar Íslendinga, sem okkur hættir stundum til að líta niður á og finnast heldur ómerkur skáldskapur. Ekki veit ég hvað veldur. Sumar tækifærisvísur eru hinn besti skáldskapur, þó að fylgi þeim sá galli, ef það er ekki alveg eins kostur, að saga verður að fylgja með vísunni til skýringar. Þannig eru mörg dæmi þess, að góðar sögur varðveitast vegna skáldskaparins sem fylgir þeim, því að sá sem talar íslensku á gott með að muna það, sem fellt er í ramma bragfræðinnar. En nú er svo komið fyrir mér, að ég hef í höndum eina vísu eftir Þórð Gestsson, tækifærisvísu, en vantar söguna sem fylgir. Langar mig til gamans að fara með þessa vísu, ef einhver hlustenda skyldi kannast við hana og geta látið kvöldvökunni í té söguna eða tilefnið til vísunnar. Vísan er svona:

 

Sigurður fór þá land úr landi

læknandi marga sálarpest,

ríðandi á einum rauðum gandi

rikkilín bar og hrossabrest.

Á herðunum lék sér heilagur andi,

hamri og sigð var dável fest.

Kurruðu menn og fældist fjandi

Flat-lúsar-eyja-skeggja-prest.

 

Ef hlustendur hafa haldið að námsleiði væri eitthvert nýtt fyrirbæri, uppfinning nútímaæskunnar, þá skyldu þeir hinir sömu hlusta vel á þessa vísu, sem Þórður Gestsson orti í kennslustund. Sjáum fyrir okkur kennarann, sem af hugsjón rækir starf sitt og trúir því að börnin verði að mönnum af því að læra náttúrufræði, þegar hann fær þessa vísu frá nemandanum.

 

Lúsin er dauð og líka flóin

lögin sprungin við Tjörunes

Krían er þögnuð, þotinn kjóinn,

þornaður börkur Pálmatrés.

Gefðu okkur frí og gakktu í sjóinn

Guð veri með þér, Jóhannes.

 

Þessari stuttu kynningu á Þórði Gestssyni ætla ég svo að ljúka með gamansömu kvæði sem heitir Árstíðabálkur og fjallar um áhrif árstíðanna á okkur Íslendinga og þarfnast enda ekki fleiri skýringa.

 

Árstíðabálkur.

Hræri ég minnar Hörpu strengi.

Haustið kemur og er og fer.

Rigningar gera rennvot engi

rassblautir smalar berja sér,

geldast þá kýr og grennast hestar,

gránar í rót við kraðaél.

Reiðbuxur manna rifna flestar,

í réttum er drukkið fast og vel.

 

Svo slitnar haustsins handabandið

Þá hamast vetur með grimmum sið.

Heimskautaveður herja landið.

Á Hornströndum fer að reka við.

Máninn í heiði hálfur sprangar,

himinninn skartar stjörnunum.

Sterkviðri geisa stundir langar.

Steingrímur kennir börnunum.

 

Húsum er riðið heilar nætur.

Hornóttir djöflar aka sér.

Meydómi týna manna dætur

í myrkranna hít á landi hér.

Fölnað er lauf og fegurð blóma.

- Fyrr má nú vera bölvað stuð.  –

Jörðin er keyrð í jökuldróma.

Ég segi pass og treysti á guð.

 

--------------------

 

Á vorin er allt með öðru sniði

þá umfaðmar sólin himininn.

Þá reisa menn hús af rekaviði.

Þá ríður margur í fyrsta sinn

því hestarnir skeiða víðan völl

og valhoppa landsins tignu fjöll.

 

Sauðirnir strjúka í allri ullu.

Ilmandi blærinn heillar oss.

Gemlingar fá þá gjarna drullu.

Græða sig kýr og fitna hross.

Steingeitur klifra í háum hömrum,

hækkandi þrár sjást alls staðar.

Próftakar dúsa á dimmum kömrum;

-          dáindis gott að svindla þar.

 

Tunglið er hætt að taka hann Óla

það taka nú fæstir eftir því.

Sérlega lekkra sumarkjóla

sætustu drósir klæðast í.

Gorkúlur spretta á hesthúshaugum

hurðir á fjósum gisna mjög.

Illt er um skjól hjá öllum draugum.

Alþingi semur fræðslulög.

 

Náttúran gerir gull úr steini

(gott er að fara hinn breiða veg).

Bjartfælnir púkar liggja í leyni

lævísin er þeim náttúrleg.

Andskotinn sáir illu sæði,

sem ekki er nú held ég nema von.

En fuglarnir syngja fögur kvæði

fyrir Jóhannes Áskelsson.

 

Á sumrin er unnið alla daga

eins er um nætur lítil hvíld.

Menn rembast þá við að róa og saga

raka sig, heyja og veiða síld.

Tittlingar líða í léttum vindi

lóurnar syngja um himinhvel.

En síldin er fugla síst að yndi

- Sú er nú oft með klofið stél.