Sjöundi pistill

Fáein orð um rímur, rímafbrigði og bragarhætti

Það fyrsta sem við skoðum í dag eru rímurnar. Rímur eru sérstök tegund söguljóða. Þær voru afar vinsælar á Íslandi fyrr á tímum og allt fram á 20. öld. Efni þeirra var sótt í riddarasögur, fornaldarsögur, ævintýri, Íslendingasögur og víðar. Rímur voru ortar undir mismunandi háttum sem einu nafni kallast rímnahættir. Hver saga varð venjulega flokkur rímna. Hver rímnaflokkur skiptist í einstakar rímur og oftast var skipt um bragarhátt við hverja rímu. Hver ríma gat verið frá 30 upp í 80 vísur. Fjöldi rímna í hverjum flokki var líka afar mismunandi. Lengstar eru Olgeirs rímur eftir Guðmund Bergþórsson (1657-1705), alls 60 rímur.

Fyrsta ríman sem vitað er um er skráð í Flateyjarbók sem rituð var um 1382-95. Þetta var ríma um Ólaf konung helga eftir Einar Gilsson lögmann. Hún hefst þannig:

 

Óláfur konungr örr og fríðr

átti Nóregi at ráða,

gramur var æ við bragna blíðr,

búinn til sigrs og náða.              (Flateyjarbók I 1944:7)

 

Hátturinn er ferskeytt sem síðan hefur verið algengasti bragarháttur í íslenskri vísnagerð.

Rímnaháttum er venjulega skipt í þrennt: ferkvæða hættir, þríkvæða hættir og tvíkvæða hættir. Ferkvæðir hættir hafa fjórar braglínur í hverri vísu, þríkvæðir hættir þrjár braglínur og tvíkvæðir hættir tvær.

Ferkvæðir hættir mynda langstærsta flokkinn. Þeir skiptast aftur í tvo aðalflokka sem heita ferskeytluætt og stafhenduætt. Ferskeytluættin er með víxlrími en stafhenduættin með runurími. Lítum á vísu eftir Kristmann Guðmundsson:

Ferskeytluætt:

 

Gegnum lífið létt að vanda

liðugt smó hann.

Nennti síðast ekki að anda

og þá dó hann.

(Kristmann Guðmundsson, sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 2004:114)

 

Hér sjáum við að línurnar ríma saman á víxl, 1. við 3. og 2. við 4.

Stafhenduættin lítur þannig út:

 

Týndur fannst en fundinn hvarf,

að fundnum týndur leita þarf,

svo týnist sá sem fundinn fer

að finna þann sem týndur er.

(Hjörtur Hjálmarsson, sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 2005:10)

 

Þríkvæðir hættir eru, eins og fyrr kom fram, þrjár braglínur hver vísa:

 

Þótt ég geri stöku stöku stöku sinni

lítt ég því að sinni sinni

sinni bara vinnu minni.

(Sigurður G. Gíslason. Skráð hér eftir minni RIA)

 

Í þessari vísu ríma allar braglínurnar saman. Þess þarf þó ekki. Hefð er fyrir því að fyrsta braglína rími ekki við tvær þær seinni.

Í tvíkvæðum háttum eru braglínurnar aðeins tvær í hverri vísu.

 

Afhendingin er mér kærst af öllum brögum,

þegar ég yrki óð af sögum.

(Sigurður Breiðfjörð. Skráð hér eftir minni RIA)

 

Og nú verða þessar tvær línur að ríma saman. Takið eftir stuðlasetningunni í afhendingunni. Í fyrri línunni eru þrír ljóðstafir eins og í fyrstu braglínu í braghendu. Í seinni línunni eru tveir stuðlar. Þessi háttur er eins og þríkvæði hátturinn sem við vorum að skoða nema nú vantar síðustu línuna, enda heitir bragarhátturinn afhending.

Til er mikill fjöldi afbrigða af þessum háttum og í svona stuttu bréfi reyni ég ekki að gera þeim nein skil. Eins og fyrr kom fram kallast þeir einu nafni rímnahættir og eiga það sameiginlegt að vera tvær, þrjár eða fjórar braglínur, hver lína ekki fleiri en fjórar kveður (ath. þó að braghenda og afhenda hafa fyrstu línu tvískipta) og að jafnaði tvö atkvæði í hverri kveðu. En hér förum við ekki út í þetta. Rímafbrigði af þessum háttum eru óteljandi. Hér er því miður ekki tími til að sýna ykkur þessa flóru en ég ætla að nefna hér fáein nöfn á rímformum sem hver vísa gat haft, innan hverrar rímu. Þar má nefna heiti eins og frumframhent, frumsamhent, hálfhent, víxlframhent, alhent, síðframhent, víxlalhent, frumbakhent, síðbakhent, hályklað, frumstiklað, skáríma, mishent, þráhent og síðhent. Sum bragform bera heiti eins og þrístikla, sléttubönd, fléttubönd, fagrislagur, fagriháttur, dvergmálsháttur, vikivakalag og veltilag og svona mætti telja lengi enn. Ég hygg að það sé ástæða til þess fyrir ykkur hér að þakka guði fyrir að þið þurfið ekki að læra þetta allt saman.

Að lokum ætla ég að sýna ykkur dæmi um eitt af þessum formum. Það heitir alrímað og síhent. Skoðið þessa vísu vel og hyggið að hvað einkennir rímið í henni:

 

Ljóðaþáttur heyrast hjá

hallarum skyldi.

Óðarháttum eyra ljá

allur grúinn vildi.                     (Sveinbjörn Beinteinsson 1953:9)

 

Í 13. og 14. kafla Bögubókarinnar er fjallað um hringhendur og sléttubönd. Hringhenda er eins og kom fram í 2. pistli vísa með innrími sem felst í því að fyrri atkvæði 2. bragliðar ríma saman alla vísuna í gegn. Skoðum dæmi eftir Braga Björnsson:

 

Furða mundi fáa á því,

frú með lundu ríka,

þó að hundur hlaupi í

hana stundum líka.                (Bragi Björnsson 1985:45)

 

Takið eftir því að innrím af þessu tagi er frábrugðið t.d. endarími að því leyti að hér rímar aðeins fyrra atkvæði orðsins eins og fyrr kom fram:

mund-  lund-  hund-  stund-

Sléttubönd kallast vísur sem hægt er að hafa yfir jafnt aftur á bak sem áfram án þess að bragreglur raskist. Um þetta eru til mörg dæmi bæði gömul og ný. Sumar sléttubandavísur eru gerðar á þann veg að merking þeirra breytist ef þær eru lesnar aftur á bak. Frægasta dæmið um slíkt er að líkindum vísa Jón Þorgeirssonar:

 

Sóma stundar, aldrei ann

illu pretta táli,

dóma grundar, hvergi hann

hallar réttu máli.                     (Jón Þorgeirsson. Skráð hér eftir minni RIA)

 

Þegar vísan er lesin eins og hún birtist þarna er hún hólvísa. Það breytist mjög til hins verra ef hún er lesin hina leiðina:

 

Máli réttu hallar hann,

hvergi grundar dóma,

táli pretta örgu ann,

aldrei stundar sóma.

 

Við endum pistilinn á fallegri vísu eftir fyrrnefndan Braga Björnsson:

 

Gyllir sunnu töfratjald

tinda, ver og granda,

hillir unnar öldufald

upp við Héraðssanda.             (Bragi Björnsson 1985:22)

 

Heimildir:

Bragi Björnsson. 1985. Agnir. Menningarsamtök Héraðsbúa.

Flateyjarbók. 1944. Sigurður Nordal sá um útgáfuna. Flateyjarútgáfan, Prentverk Akraness h.f., Akranesi.

Ragnar Inga Aðalsteinsson. 2004. 101 vísnaþáttur úr DV – og tveir að auk. Fyrri hluti. Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík.

Ragnar Inga Aðalsteinsson. 2005. 101 vísnaþáttur úr DV – og tveir að auki. Seinni hluti. Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík.

Sveinbjörn Beinteinsson. 1953. Bragfræði og háttatal. Leiftur hf., Reykjavík.