Sjötti pistill

Örlítið um forliði og þríliði

Forliðir eru áherslulaus orð, oftast aðeins eitt atkvæði, sem standa í upphafi línu, framan við hina eiginlegu fyrstu kveðu. Skoðum vísu eftir Látra-Björgu:

 

Beiði ég þann sem drýgði dáð

og deyð á hörðum krossi leið

sneiða þann af nægt og náð

sem neyðir mig um sjöttareið.    (Guðrún P. Helgadóttir 1963:74)

 

Í limrum geta forliðir orðið lengri, algengt að þeir séu tvö atkvæði. Það stafar af því að í limrum er þrískiptur taktur, þríliðir. Skoðum dæmi eftir Jónas Árnason:

 

Út í sandinn vor róttækni rennur,

loginn rauði við slitranda brennur,

og í makindadá

falla markmiðin há

og hann Megas er kominn með tennur.        (Jónas Árnason 1994:7)

 

Feitletruðu orðin eru áhersluléttir forliðir. Takið eftir því að ljóðstafir eru ekki í forliðunum, enda er það alfarið bannað. Höfuðstafur 2. braglínu er "r" í "rauði" svo dæmi sé tekið.

 

Þríliðum er stundum skotið inn í vísur sem annars byggjast upp á tvíliðum:

 

Ævi mín er vörn í vök,

vökina leggur bráðum.           (Örn Arnarson 1942:76)

 

 

Algengt er í íslenskum kveðskap að tvíliðir og þríliðir skiptist á. Í næstu vísu er þríliðataktur þó að tvíliðir komi þar fyrir inn á milli. Takið eftir því að áherslan verður heldur þyngri á tvíliðunum. Þríliðir eru feitletraðir, tvíliðir undirstrikaðir, stúfar og forliðir ómerktir (athugið að síðustu liðir í frumlínunum eru stúfar því að þar eru aðeins tvö atkvæði. Þetta eru líka tvíliðir):

 

Póstur hann | drekkur, | þvælir og | þvargar

þar til hann | veit ekki | meir.

Þá | dansar hann, | syngur, | æpir og | argar

ælir, | stynur og | deyr.                                             (Hákon Aðalsteinsson. 2010:142)

 

Leiða má rök að því að forliðurinn sé hluti af síðasta braglið línunnar á undan. Ef braglína endar á óstýfðum lið er naumst rúm fyrir forlið í línunni á eftir. Skoðum dæmi:

 

Spyrna í hnjóta halir sterkir

hvergi rótast djöfuls ækið.

Um skrokkinn þjóta þreytuverkir

þetta er ljóta fyrirtækið.                     (Ungir menn í Hrafnkelsdal um 1950)

 

Forliðurinn í 3. braglínu (feitletraður) er helst til fyrirferðarmikill vegna þess að 2. braglína endar á óstýfðum lið.

 

Sum kvæði byggjast alfarið upp á þríliðum sem fylla hvern braglið og eru án undantekninga. Það er þó fátítt. Dæmi um það er kvæði Jóns Helgasons, Í Árnasafni:

 

Innan við | múrvegginn | átti ég | löngum mitt | sæti

utan við | kvikaði |borgin með | gný sinn og | læti ...

 

Forliðir eru heldur til prýði ef þeir eru settir á réttan stað, eru hæfilega langir og hafa rúm til að vera þar sem þeir eiga að vera. Þeir geta líka orðið of langir eða fyrirferðarmiklir þegar þeim er hnoðað inn það sem ekki er rúm fyrir þá. Og við megum aldrei gleyma því að ljóðstafir mega aldrei standa í forliðum því að þeir eru áhersluléttir. Ljóðstafur verður alltaf að hafa þyngd áhersluatkvæðisins.

Þríliðir geta líka verið til nokkurrar prýði innan um tvíliðina ef hóf er á og rétt er að geta þess að betra er að hafa slíka innskotsþríliði í fyrstu kveðu braglínunnar heldur en í þeim seinni. Því veldur áherslan sem er sterkust fremst í línunni. Ljóð eins og Í Árnasafni er hins vegar byggt á þríliðum eingöngu og þá er takturinn valstaktur, þrjú atkvæði í hverjum braglið.

 

Heimildir:

Guðrún P. Helgadóttir. 1963. Skáldkonur fyrri alda. Kvöldvökuútgáfan, Akureyri.

Hákon Aðalsteinsson. 2010. Fjallaþytur. Bókiaútgáfan Hólar, Reykjavík.

Jónas Árnason. 1994. Jónasarlimrur. Hörpuútgáfan, Akranesi.

Örn Arnarson. 1942. Illgresi. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Reykjavík.