Fimmti pistill

Hvar mega ljóðstafir standa

Reglur þær sem segja til um staðsetningu ljóðstafanna hafa fylgt hinu hefðbundna formi mjög lengi. Þó er reglan um annan stuðulinn í 3. kveðu ekki eins gömul og hinar, einfaldlega vegna þess að í öndverðu voru braglínur styttri en síðar tíðkaðist. Þess vegna máttu stuðlarnir standa í hvaða kveðum sem var. Reyndar var algengt bæði í ljóðahætti, fornyrðislagi og kviðuhætti, svo dæmi séu tekin, að stuðull væri aðeins einn. Línurnar voru þá aðeins tvö ris (kveður):

 

þat berk út  =   einn stuðull

ór orðhofi

mærðar timbr =  einn stuðull

máli laufgat.                     (Skjd. 1967 I B:34. Egill Skalla-Grímsson, Sonatorrek)

 

Í dróttkveðunum voru alltaf þrjú ris í hverri línu. Því fylgdi sú undantekningalausa regla að stuðlar voru ávallt tveir:

 

gjalla lætk á golli    =   tveir stuðlar                    

geisla njóts, meðan þjóta,            

heitu, hrærikytjur =   tveir stuðlar         

hreggs vindfrekar, sleggjur.         (Skjd. 1967 I B:27. Skalla-Grímur Kveldúlfsson Lv)

 

Það er ekki fyrr en með hinum löngu línum í hrynhendunni sem upp kemur sú regla sem við þekkjum svo vel í dag. Annar stuðullinn verður að vera í 3. kveðunni.

 

Almáttugur Guð, allra stétta   =   tveir stuðlar, í 1. og 3. kveðu

yfirbjóðandi engla og þjóða,

ei þurfandi stað né stundir,   =   tveir stuðlar, í 3. og 4. kveðu  

stað haldandi í  kyrrleiksvaldi,     (Skjd. 1967 II B:390. Eysteinn Ásgrímsson Lilja)

 

Reyndar var venjan að setja þetta fram sem þrjár reglur. Þær voru þannig:

1.  Ekki má vera of langt milli stuðlanna.

2.  Ekki má vera of langt frá seinni stuðlinum að höfuðstaf.

3.  Stuðlarnir mega ekki standa báðir í lágkveðu.

 

Þegar málið er skoðað kemur í ljós að allar þessar þrjár reglur komast sem best fyrir í einni. Ef annar stuðullinn af tveimur stendur í 3. kveðunni er málið leyst. Það er miklum mun auðveldara að læra eina reglur heldur en þrjár.

Fjórða (önnur) reglan er sú að höfuðstafurinn stendur alltaf fremst í síðlínunni.

 

Ofstuðlun

Það kallast ofstuðlun þegar ljóðstafir verða of margir innan braglínuparsins sem stuðla skal. Í frumlínunni eiga stuðlar að vera tveir og einn höfuðstafur í síðlínunni. Ef stuðlar eru fleiri eða hljóð höfuðstafs tvítekið er það kallað ofstuðlun.

 

Dæmi:

Vélaskrölt og hark og hljóð

hátt um hæðir klingja.

Dásemd dagsins dýran óð

dráttarvélar syngja.              (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 1990:20)

 

Ofstuðlun er í 2. og 3. braglínu (sjá feitletur, ljóðstafir eru undirstrikaðir).

Til að hægt sé að tala um ofstuðlun verða þeir ljóðstafir sem ofaukið er að standa í áhersluatkvæðum eins og á við um aðra ljóðstafi.

 

Aukaljóðstafir

Aukaljóðstafir heitir það þegar til viðbótar við hina eiginlegu ljóðstafi bætast stuðlar sem ekki eru þeir sömu og hinir fyrri. Skoðum sem dæmi nafnavísu. Í fyrra tilvikinu eru aukaljóðstafir í frumlínunni (sjá feitletur, ljóðstafir undirstrikaðir):

 

Bjarki, Kári, Kjartan, Björn,

Kolla, Guðrún, Unnur.

 

Í seinni hluta vísunnar eru aukaljóðstafir í síðlínunni:

 

Bergur, Davíð, Brandur, Örn,

Bína, Guðrún, Gunnur,

 

Nokkur stigsmunur er talinn á því hvort aukaljóðstafir standa með nokkru millibili, eins og í fyrra tilvikinu, eða hlið við hlið eins og í því seinna. Ef aukaljóðstafir standa hlið við hlið verða þeir sterkari og því líklegri til að trufla þá stuðlasetningu sem fyrir er (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 1996:39–40).

 

Frá Braga til Steins

Hér á eftir birtist kafli úr meistaraprófsritgerð minni (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2004). Þar er fjallað um þann hluta rannsóknar minnar sem sneri að ofstuðlun og aukaljóðstöfum. Rannsóknin náði til 21 skálds. Elst er Bragi Boddason sem var uppi fyrir landnámstíð og yngstur er Steinn Steinarr. Það sem talið er í Töflu 1 er í fyrsta lagi ofstuðlun og hvort hún er í frumlínu eða síðlínu og í öðru lagi aukaljóðstafir og hvort þeir standa hlið við hlið eða einn eða tveir bragliðir á milli þeirra.

Aðeins hjá tveimur af þeim skáldum sem rannsóknin náði til fundust hvorki dæmi um ofstuðlun né aukaljóðstafi. Það eru þeir Bragi Boddason og Egill Skalla-Grímsson. Hvað Braga varðar er rétt að benda á að þar eru braglínupör mun færri en hjá hinum skáldunum. Þessi braglýti koma sjaldan fyrir hjá fornskáldunum, þ.e. þeim sem uppi eru á 13. öld og fyrr. Það er eins og ofstuðlun fari úr böndunum með Eysteini Ásgrímssyni. Í kvæði hans, Lilju, eru braglínur eru einum braglið lengri en í dróttkveðum. Lengri línur bjóða frekar upp á ofstuðlun en styttri. Upphaf kvæðisins hljóðar svo:

 

Almattegr gud allra stetta

yfir biodandi eingla ok þioda

 

Hér eru ljóðstafirnir sérhljóðar og því ofstuðlun í síðlínunni, ei í eingla.

Hjá Halli Ögmundssyni er ofstuðlun svipuð og hjá Eysteini auk þess sem aukaljóðstafir eru mun tíðari en áður hafði sést.

 

Ekki fanst meðal hæls og hnakka

hold né æðr, sú eigi blæði,  (Hallur Ögmundsson 1922-27. Krossdrápa 22)

 

Svipaða sögu er að segja um Jón Arason en þá dregur úr þessum braglýtum aftur utan það að Hallgrímur Pétursson ofstuðlar mjög oft. Eftir það er ofstuðlun fátíð.

Tafla 1 Ofstuðlun í frumlínu og síðlínu, aukaljóðstafir hlið við hlið (þ.e. í kveðum sem standa samsíða) og aðskildir (þ.e. þegar ein kveða eða fleiri standa á milli þeirra).

Höfundar

aldur

ofst. í fruml.

ofst. í síðl.

aukaljst. hlið v/hlið

aukaljst. aðskildir

Bragi Boddason

9. öld

-

-

-

-

Egill Skalla-Grímsson

10. öld

-

-

-

-

Sighvatur Þórðarson

11. öld

1

-

1

1

Arnór Þórðarson jarlask.

11. öld

3

1

2

2

Einar Skúlason

11.–12. öld

2

5

1

-

Sturla Þórðarson

1214–1284

1

3

1

-

Eysteinn Ásgrímsson

? – 1361

9

14

3

1

Hallur Ögmundsson

15.–16. öld

6

18

13

10

Jón Arason

1484–1550

13

12

28

13

Einar Sigurðsson í Heyd.

1538–1626

7

5

5

3

Hallgrímur Pétursson

1614–1674

13

3

-

4

Stefán Ólafsson

1619–1688

3

2

7

1

Eggert Ólafsson

1726–1768

3

-

2

1

Jón Þorláksson

1744–1819

1

-

-

1

Sigurður Breiðfjörð

1798–1846

-

-

-

1

Jónas Hallgrímsson

1807–1845

1

2

1

3

Steingrímur Thorsteinsson

1831–1913

1

1

1

2

Matthías Jochumsson

1835–1920

-

1

1

-

Kristján Jónsson

1842–1869

-

-

4

11

Davíð Stefánsson

1895–1964

-

1

-

3

Steinn Steinarr

1908–1958

-

2

-

-

 

Hér að ofan getur að líta Töflu 1. Nöfn skáldanna koma fram í skrá sem fylgir hér á eftir. Þessi mynd sýnir vel hve sérkennileg þróun átti sér stað hvað varðaði ofstuðlun og aukaljóðstafi í íslenskum kveðskap.

Eins og greinilega má sjá á Töflu 1 er langmest um bæði ofstuðlun og aukaljóðstafi á tímabilinu frá 14. öld fram á þá 17.

Hjá Kristjáni Jónssyni Fjallaskáldi fundust fleiri dæmi um aukaljóðstafi en hjá öðrum samtímamönnum hans. Langoftast er um að ræða aðskilda ljóðstafi:

 

flytjumst vér, sem fyrir straumi

fljóti gnoð um sollið gráð.                (Kristján Jónsson 1986:47)

 

Hér eru aukaljóðstafirnir báðir í lágkveðum og einn bragliður á milli þeirra. En þannig er það ekki alltaf:

 

hrímgaðir ellihélu lokkar ljósir,

horfinna daga frægð er týnd og misst. (Kristján Jónsson 1986:64)

 

Hér er stuðlun á þann veg að lesandinn hlýtur að búast við hljóðinu l sem höfuðstaf þegar frumlínan er lesin. L-in í lokkar ljósir virðast líklegri til að mynda stuðlunarparið en h-in, t.d. vegna þess að annað þeirra er inni í orði, ellihélu (ljóðstafur undirstr.).

Þessir aukaljóðstafir í kveðskap Kristjáns vekja nokkra furðu vegna þess að ofstuðlun fannst alls ekki hjá honum. Slík nákvæmni er fátíð hjá skáldum eins og sjá má af Töflu 1. Kristján virðist því hafa litið svo á að aukaljóðstafir væru alls ekki til skaða. Vegna þess hve hann forðast ofstuðlunina er alls ekki trúlegt að hann hafi ekki heyrt misfellurnar. Skýringin hlýtur að vera sú að honum hafi einfaldlega ekki fundist aukaljóðstafirnir spilla kveðskapnum.

Eins og sjá má af Töflu 1 hafa bæði ofstuðlun og aukaljóðstafir fylgt íslenskum kveðskap frá því snemma á öldum, en oftast í litlum mæli. Ef frá er talið þetta sérkennilega tímabil, frá því upp úr 1300 og eitthvað fram á 17. öld, þegar skáldin virðast gefa mjög eftir hvað þetta varðar, eru þessi braglýti fátíð.

Ekki hefur verið deilt um það að ofstuðlun sé brot á bragreglum. Snorri Sturluson (1999) kvað upp úr með það í Eddu. Hitt hefur verið umdeilanlegra hvort aukaljóðstafir væru í raun slíkt reglubrot (sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 1996:39–40). Þegar Tafla 1 er skoðuð kemur þó í ljós að skáldin hljóta að hafa vísvitandi haldið slíku í skefjum. Það sést á því hvað gerist á fyrrgreindu tímabili þegar slakað er á kröfunum. Hjá Jóni Arasyni fundust alls 25 dæmi um ofstuðlun og 41 dæmi um aukaljóðstafi. Ef ekki er gætt að þessu sérstaklega verður niðurstaðan eitthvað í líkingu við það sem þarna sést. Tafla 1 sýnir að aukaljóðstafir hafa lengst af verið taldir til lýta og skáld hafa sneitt hjá þeim eftir bestu getu nema í þessum undantekningartilvikum sem sanna að reglan hefur verið til.

 

Heimildir:

Guðbrandur Þorláksson. 1589. Ein ny Psalma Bok, Med morgum Andligum Psalmum, Kristelegum Lofsaunguum og Vijsum skickanlega til samans sett og Auken og endurbætt. Hólum.

Hallur Ögmundsson. 1922–1927. Kvæðasafn eftir nafngreinda íslenska menn frá miðöld. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Jón Samsonarson. 1989. Hakabragur. Véfréttir sagðar Vésteini Ólasyni fimmtugum. Svavar Sigmundsson sá um útgáfuna, Reykjavík.

Kristján Jónsson Fjallaskáld. 1986. Ljóðmæli. Matthías Viðar Sæmundsson sá um útgáfuna. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 1990. Bögubókin. Iðnú, Reykjavík.

Sami. 1996. Suttungur. Iðnú, Reykjavík.

Sami. 2004. Frá Braga til Steins. Nokkrar athuganir á stuðlasetningu í íslenskum kveðskap. Óprentuð meistaraprófsritgerð við Háskóla Íslands.

Skjd. A og B. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A og B I–II. Finnur Jónsson (gaf út).  Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.

Snorri Sturluson. 1999. Edda: Háttatal. Edited by Anthony Faulkes.  Viking society for northern research. University College of London. First published by Clarendon Press in 1991.

 


Skrá yfir þau skáld sem rannsóknin náði til:

Arnór Þórðarson jarlaskáld. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A I. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.

Bragi Boddason. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A I. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.

Davíð Stefánsson. 1952. Að norðan. Helgafell, Reykjavík.

Sami. 1960. Í dögun. Helgafell, Reykjavík.

Eggert Ólafsson. 1832. Kvæði. S.L. Möller, Kaupmannahöfn.

Egill Skalla-Grímsson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A I. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn..

Einar Sigurðsson í Heydölum. 2000. Vísnabók Guðbrands. Jón Torfason og Kristján Eiríksson sáu um útgáfuna. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Einar Skúlason. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A I. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.

Eysteinn Ásgrímsson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A II. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.

Hallgrímur Pétursson. 1996. Passíusálmar. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Reykjavík.

Sami. 1956. Króka-Refs rímur. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Rit Rímnafélagsins, VII. Rímnafélagið, Reykjavík.

Hallur Ögmundsson. 1922–1927. Kvæðasafn eftir nafngreinda íslenska menn frá miðöld. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Jón Arason. 1918. Jón Arasons religiøse Digte. Útgefið af Finni Jónssyni. Bianco Lunos Bogtrykkeri, Kaupmannahöfn.

Jón Þorláksson. 1976. Kvæði, frumort og þýdd. Heimir Pálsson bjó til prentunar. Rannóknastofnun í bókmenntafræði og Menningjarsjóður, Reykjavík.

Jónas Hallgrímsson. 1989. Ljóð og lausamál. Svart á hvítu, Reykjavík.

Kristján Jónsson. 1986. Ljóðmæli. Matthías Viðar Sæmundsson sá um útgáfuna. Almenna bókafélagið, ljóðaklúbbur, Reykjavík.

Matthías Jochumsson. 1936. Ljóðmæli. Magnús Matthíasson, Reykjavík.

Sighvatur Þórðarson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A I. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.

Sigurður Breiðfjörð. 1951 og 1953. Ljóðasafn I og II. Ísafoldarprentsmiðja h.f., Reykjavík.

Sami. 1966. Rímnasafnið. Sveinbjörn Beinteinsson hefur tekið saman. Helgafell, Reykjavík.

Stefán Ólafsson. 1885. Kvæði. Gefin út af hinu íslenzka bókmentafélagi. Bianco Luno, Kaupmannahöfn.

Steingrímur Thorsteinsson. Ljóðmæli. Prentsmiðjan Leiftur, Reykjavík.

Steinn Steinarr. 1964. Kvæðasafn og greinar. Helgafell, Reykjavík.

Sturla Þórðarson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A II. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.