Fyrsti pistill

Hvernig á að gera vísu

Í fyrsta kafla Bögubókarinnar (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 1994) er lögð áhersla á að hæfileikinn til vísnagerðar sé ekki meðfæddur nema að litlu leyti heldur miklu frekar áunninn. Þeir sem ætla að verða hagyrðingar eiga að læra reglurnar og æfa sig svo markvist og ákveðið. Kafli 2 er um hrynjandina í kveðskapnum, taktinn. Takurinn byggist á því að í íslensku leggjum við alltaf áherslu á fyrsta atkvæði í hverju orði og því er það svo, ef við röðum saman nokkrum tveggja atkvæða orðum, að áherslan lendir á öðru hverju atkvæði. Við það skapast föst hrynjandi. Sama gerist ef við notum tvö eins atkvæðis orð í stað tveggja atkvæða orðsins. Skoðum vísu eftir Rögnvaldur Rögnvaldsson:

 

Endurtekin er vor saga

á því ræðst ei bót.

Margir sínar neglur naga

nú við áramót.

(Rögnvaldur Rögnvaldsson 2002:66)

 

Í 3. braglínu eru fjögur tveggja atkvæða orð. Áherslan er alltaf á fyrra atkvæðinu sem þýðir að annað hvert atkvæði fær áherslu. Í 4. línu samanstendur fyrsti bragliðurinn af tveimur eins atkvæðis orðum og niðurstaðan verður sú sama; áherslan lendir á fyrra orðinu (sjá einnig 2. línu og 3. braglið í 1. línu).

Braglínunum er skipt í kveður eða bragliði (eins konar taktbil). Skoðum vísu eftir Baldur Eiríksson frá Dvergsstöðum í Eyjafirði. Þverstrikin afmarka kveðurnar:

 

Oft með | pyngju | fer hann | flott,

fljóðin | syngur | kringum,

er með | hringað, | uppbrett | skott,

arf frá | Þingey- | -ingum.

(Sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 2004:70)

En hrynjandin er ekki alltaf svona. Lítum á aðra vísu eftir Rögnvald:

 

Í | stofunni | minni ég | stend við að | þurrka burt | rykið,

af | stólum og | borðum, en | gleymi svo | fyrir | vikið,

að | rykfallinn | anda minn | ekki ég | nógu vel | hirði.

Ætli | hann, eða | stofan sé | meira | virði?

(Rögnvaldur Rögnvaldsson 2002:65)

 

Hér er á ferðinni allt önnur hrynjandi. Nú eru þrjú atkvæði í hverri kveðu (með örfáum undantekningum þó). Hvort tveggja er þó jafnrétt samkvæmt hefðinni.

1., 2. og 3. lína byrja á forlið, áhersluléttu eins atkvæðisorði. Um þá verður fjallað seinna (sjá t.d. 6. pistil). Þríliðirnir eru ráðandi í 1. og 3. línu (allt þríliðir nema tvíliðurinn í lokin), í 2. línu eru tvær síðustu kveðurnar tvíliðir og í 4. línu eru 1., 4. og 5. kveða tvíliðir.

Fyrsta kveða í hverri línu (forliðurinn er ekki talinn með) kallast hákveða, þá kemur lágkveða, þá aftur hákveða o.s.frv.

Við endum á skemmtilegri vísu eftir Hallberg Hallmundsson. Í fyrstu línunni er úrfelling, þ.e. „a“ í „Iðulega“ og „e“ í „er“ renna saman í eitt atkvæði:

 

Iðulega er enginn sér

út í búr ég feta,

þar úr öllum fötum fer

og fæ mér ber að éta.

(Hallberg Hallmundsson 1995:15)

 

 

Heimildir:

Hallberg Hallmundsson. 1995. Vandræður. Brú, Reykjavík/New York.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 1994. Bögubókin. Iðnú, Reykjavík.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2004. 101 vísnaþáttur úr DV – og tveir að auki. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri.

Rögnvaldur Rögnvaldsson. 2002. Húnvetnskt bros i augum. Hlín Stefánsdóttir, Akureyri.