Örfá orð um rím

Útdráttur úr 4. kafla bókarinnar Suttungur eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson (1996).
Víxlrím, einrím (karlrím), tvírím (kvenrím).

Inn í stofu Falur fer
fylgir liði vösku.
Ritföng, blöð og kennslukver
kúra niðrí tösku.

Fer/kver er einrím, eitt atkvæði í hvoru orði. Vösku/tösku er tvírím. Í þessari vísu er víxlrím.
Það merkir að orðin ríma á víxl í línunum, 1. lína rímar við 3., 2. við 4.

Þrírím (veggjað rím)

Mörgum þykir þjakandi
þroskabrautin stranga.
Enda varla vakandi
virðast sumir hanga.

Hér er víxlrím eins og í fyrri vísunni en í 1. og 3. línu ríma saman þriggja atkvæða orð.
Það heitir þrírím eða veggjað rím.

Flatrím
Flatrím kallast það þegar saman ríma endar þriggja atkvæða orða.

Kænn og slunginn kennari
kennir okkur stærðfræði.

Flatrímið byggist á því að í þriðja atkvæði orða í íslensku kemur aukaáhersla (eins og þið vitið er það regla í íslensku að leggja alltaf áherslu á fyrsta atkvæði hvers orðs). Þess vegna verður svona rím að vera í enda þriggja atkvæða orða en ekki þeirra sem eru tvö atkvæði.
Flatrím þykir ekki fallegt og heldur reyna skáld að forðast það. Þó er ekkert bragfræðilega rangt við að nota flatrím.

Framrím, endarím, runurím

Enn er komin kennslustund.
Kennir okkur glaðbeitt hrund.
Hennar sem við sækjum fund
senn mun kætast okkar lund.

Enn-/Kenn-/Henn-/senn- er framrím, stendur fremst í braglínunni.
Stund/hrund/fund/lund er endarím, stendur aftast í línunni. Þetta er líka kallað runurím af því að
braglínurnar ríma hver við aðra í röð (runu).

Innrím – hringhenda

Inní tíma einn við borð
oft með flím og þrætur
Falur kíminn orð við orð
orðsnjall ríma lætur.

Í áhersluatkvæði 2. bragliðar hverrar braglínu í þessari vísu eru orð sem ríma:
tím-/flím/kím-/rím-. Þetta kallast innrím. Vísa með svona rími kallast hringhenda.

Alrím, sniðrím, hálfrím
Alrím kallast það þegar orð ríma saman að fullu; hár/klár – dagur/fagur.

Sniðrím heitir það þegar orð ríma saman utan áherslusérhljóðið er annað;
hönd/band – eldur/faldur.

Hálfrím (sérhljóðarím) nefnist það þegar stofnsérhljóðið er það sama en samhljóðarnir eru mismunandi;
fugl/gull – för/töf – renna/hremma – ýta/líka.

Rétt er að taka fram að þessi heiti (einkum á það við orðin sniðrím og hálfrím) eru ekki notuð á sama hátt í öllum bragfræðibókum.


Orðapör ríma saman

Hörð í slagnum hjá okkur
huguð lengi stóð hún.
Inn í hausinn á okkur
alls kyns visku tróð hún.

Hér ríma saman; hjá okkur/ á okkur – stóð hún/tróð hún. Þetta rím er oft notað í kveðskap af léttara taginu og þykir hið besta mál. Varla mundi svona rím vera notað í alvarlegri kveðskap. Hins vegar er ekkert rangt við þetta rím út frá bragfræðilegu sjónarmiði.

Rím merkt með bókstöfum

Inn í stofu Falur fer
fylgir liði vösku.
Ritföng, blöð og kennslukver
kúra niðrí tösku.

Hér yrði endarímið merkt aBaB. Fyrsta rímorðið er fer, merkt a (lítill stafur er notaður af því að þetta er einrím); næsta rímorð er vösku, merkt B (stór stafur er notaður af því að þetta er tvírím), í 3. línu er rímorðið kver, merkt a (eins og orðið sem það rímar við) og í 4. línu er rímorðið tösku, rímar við vösku, merkt eins, B.

Enn er komin kennslustund.
Kennir okkur glaðbeitt hrund.
Hennar sem við sækjum fund
senn mun kætast okkar lund.

Hér merkjum við rímið aaaa. Ath. að þessi merking á aðeins við um endarím.

Oft úr vinnu fékk hann far með Hildi.
Fattaði þó aldrei hvað hún vildi.
Uns kvöld eitt kát og rjóð
þau keyrðu fram á stóð;
þá var eins og blessuð skepnan skildi.
                             Hermann Jóhannesson

Hér er rímið merkt AAbbA.

Vísurnar hér að ofan eru allar eftir Fal (hann er af óljósu ætterni, talinn vera af Jökuldalnum) nema sú sem er merkt Hermanni Jóhannessyni.

Heimild:
Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 1996. Suttungur I. Iðnú, Reykjavík.