Og ekki lagast það

Á næstu dögum er væntanleg ný bók eftir mig. Ég á reyndar ekki von á að hún valdi bókmenntalegum straumhvörfum, en einhverjum ætti hún þó að geta orðið til ánægju. Bókin er beint framhald af Ekki orð af viti sem ég sendi frá mér þegar ég varð sextugur; ber enda heitið Og ekki lagast það og er að uppistöðu til alvörulaus vísnasamtíningur, gefin út í tilefni að því að ég varð 65 ára í janúar sl.

Í bókinni kennir ýmissa grasa. Þar má nefna kveðskap um ættingja mína sem orðið hefur til við margvísleg tækifæri. Sem dæmi má taka:

Ef þú hittir eitthvert sinn
einn sem fetar lífsveginn
þrjóskari en sjálfur þremillinn;
það er Nonni frændi minn.

Og svo hef ég gert starfsfélögum mínum svipuð skil, til dæmis þessa afmælisvísu:

Fjörið er Þórði Helga hjá
hefur hann margt í takinu.
Léttari engan segg ég sá
með sextíu ár á bakinu.

Eitt ljóðið er ort vegna þess að Jón prófessor Helgason vitjaði mín í draumi, svo er fjallað um stjórnmálaástandið og pólitíkusana og vísað í sitthvað sem borið hefur við á vegferð minni og orðið mér að yrkisefni. Fyrir nokkrum vikum orti ég til konunnar sem ég er giftur:

Vökudraumsins villta trú
víst hún léttir sporið.
Enn við hlið mér þraukar þú
þrítugasta vorið.

Læt þetta duga að sinni og minni á að bókin Og ekki lagast það verður komin í Bókahilluna mína innan skamms. Þar verður hægt að panta hana eins og aðrar bækur sem þar leynast.